Leigutakar og fasteignir

  • ~135 fasteignir

    Verslanir, skrifstofur og hótel á höfuðborgarsvæðinu eru uppistaða eignasafnsins.

  • ~700 leigurými

    Rýmin eru að meðaltali um 650 fermetrar að stærð og eru leigð til um 500 aðila.

  • ~455.000 fermetrar

    Verslunar- og skrifstofuhúsnæði skapar hvort um sig um 35-36% leigutekna og hótel um 16%.

  • ~ 500 viðskiptavinir

    Viðskiptavinir okkar eru opinberir aðilar og fyrirtæki í flestum greinum íslensks atvinnulífs.

Lykiltölur um fjárfestingareignir

Fjöldi fasteigna

~135

Fjöldi leigurýma

~700

Fjöldi fermetra

~455.000

Fjárfestingareignir

172.270 millj. kr.

- Virði fasteigna

159.328 millj. kr.

- Virði þróunareigna

7.066 millj. kr.

- Virði nýtingarrétta lóðaleigusamninga

5.876 millj. kr.

Verðmætustu tekjuberandi eignir Reita

Virði tekjuberandi eigna í árslok 2022 eftir tegundum

Virði 10 verðmætustu tekjuberandi eigna sem hlutfall heildarvirðis

45%

Virði 50 verðmætustu tekjuberandi eigna sem hlutfall heildarvirðis

84%

Virði 50 verðminnstu tekjuberandi eigna sem hlutfall heildarvirðis

8%

Fjárfestingareignir Reita skiptast í tekjuberandi og ótekjuberandi eignir. Í efnahagsreikningi félagsins er virði nýtingarrétta lóðaleigusamninga að auki fært meðal fjárfestingareigna á móti samsvarandi skuldbindingu.

Helstu fjárfestingar ársins

 

Lykiltölur um tekjur og viðskiptavini 2022

 

Leigutekjur

13.481 millj.kr.

Reiknuð leiga óútleigðra rýma

693 millj.kr.

Nýtingarhlutfall (tekjuvegið)*

95,1%

Fjöldi viðskiptavina

~500

* að teknu tilliti til reiknaðrar leigu óútleigðra rýma

 

Rekstraráhætta Reita er lágmörkuð með miklum fjölda traustra leigutaka með fjölbreyttu húsnæði á nokkrum svæðum. Reitir leggja höfuðáherslu á góð tengsl við viðskiptavini og er fjöldi leigusamninga byggður á áratugalöngu samstarfi. Oft á tíðum er ímynd fyrirtækis nátengd því húsnæði sem það er staðsett í.

 

Flokkun leigutekna eftir tegundum aðila

 

Stærstu viðskiptasambönd Reita

Um 56% leigutekna Reita koma frá aðilum sem nefndir eru á listanum og eru stærstu leigutakar Reita, þar af eru opinberir aðilar að baki um 18% leigutekna.

 

STÆRÐ VIÐSKIPTASAMBANDS

HLUTFALL LEIGUTEKNA

Opinberir aðilar

18%

Aðilar að baki 5-10% leigutekna hver

17%

- Berjaya Hotels Iceland (9%)

- Hagar (9%)

Aðilar að baki 2-5% leigutekna hver

13%

- Advania

- Hótel Borg

- Húsasmiðjan

- Origo

- Samkaup

Aðilar að baki 1-2% leigutekna hver

8%

- Geymslur

- Icelandair

- Hótel Ísland

- Krónan

- Parlogis

- Sjóvá

Um 500 aðilar að baki <1% leigutekna hver

44%

 

Stærstu leigutakar Reita

Landfræðileg dreifing leigutekna og fasteigna 2022

Myndin sýnir landfræðilega dreifingu leigutekna á árinu 2022 ásamt virði og fjölda tekju­berandi eigna í árslok.

Risar á íslenskum smásölumarkaði opna í Holtagörðum

 

Þrír stórir aðilar á íslenskum smásölumarkaði hafa tekið á leigu húsnæði í Holtagörðum og hyggjast opna þar nýjar verslanir á árinu 2023. NTC rekur m.a. verslanir Gallerí 17, GK Reykjavík og GS Skó, S4S rekur m.a. AIR verslanirnar, Steinar Waage og Ellingsen. Föt og skór reka m.a. Herragarðinn, Englabörnin og Boss verslunina.

Þá flytur Bónus innan hússins, nýja verslunin verður stærri og þægilegri fyrir viðskiptavini. Sameignin verður minnkuð, nýjum stiga og lyftum komið fyrir milli hæða og inngöngum fjölgað bæði á 1. og 2. hæð.

Þróunareignir í eignasafni Reita

Í eignasafni Reita eru byggingarréttir og ótekjuberandi eignir sem metnar voru á 7.066 millj. kr. í árslok 2022. Þar á meðal eru fasteignir sem mynda leigutekjur og metnar væru á um 3.100 millj. kr. ef notuð væri sama aðferðafræði við virðismat þeirra og beitt er við virðismat tekjuberandi eigna. Alls er um að ræða byggingarrétt að um 200 þúsund fermetrum á höfuðborgarsvæðinu sem félagið getur nýtt sér eða selt.

Deiliskipulag Korputúns afgreitt og í staðfestingarferli

Í landi Blikastaða í Mosfellsbæ eiga Reitir um 15 hektara svæði þar sem fyrirhuguð er uppbygging á 90 þúsund fermetra atvinnukjarna. Svæðið hefur fengið nafnið Korputún. Náttúrugæði, sjálfbærni og samnýting er höfð að leiðarljósi við skipulag svæðisins sem verður vottað skv. BREEAM Communities vistvottunarkerfinu.

Skipulagsstofnun hefur afgreitt skipulag svæðisins og er vænst þess að staðfesting þess náist á fyrsta fjórðungi 2023. Gert er ráð fyrir að gatnaframkvæmdir hefjist í kjölfarið og að framkvæmdir við verslunarreit fyrir svæðið verði fyrsti áfanginn. Reitir hafa í hyggju að byggja hann upp í samvinnu við öfluga rekstraraðila á því sviði. Fjárfesting Reita á þeim tiltekna byggingarreit gæti numið nokkrum milljörðum króna, en forhönnun er nú í gangi.

Reiknað er með að uppbygging Korputúns geti tekið um tíu ár og verði mikilvægur hlekkur í verðmætasköpun til handa hluthöfum næsta árutuginn.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á www.korputun.is.

Uppfært aðalskipulag opnar á þróun Kringlusvæðisins

 

Uppbygging Kringlusvæðisins er langtímaverkefni um þróun samfélags, með blöndu af íbúðum, verslun og þjónustu, menningu og listastarfsemi. Íbúðabyggð við Kringluna verður áhugaverður kostur fyrir þau sem vilja búa miðsvæðis með aðgengi að þeirri víðtæku þjónustu og afþreyingu sem finna má á Kringlusvæðinu auk þess að njóta nálægðar við miðbæinn og stór atvinnusvæði.

Uppfært aðalskipulag Reykjavíkur, ASK 2040, sem tók gildi í ársbyrjun 2022 opnaði fyrir þær skipulagsbreytingar sem Reitir hafa unnið að undanfarin ár. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að byggðar verði 1.000 íbúðir á svæðinu öllu, sem er að stóru leyti í eigu Reita.

Deiliskipulag fyrsta áfanga, sem nær til suðvesturhluta svæðisins, er í undirbúningi  en þar er gert ráð fyrir rúmlega 50 þús. fermetra byggð á 5 byggingareitum með um 350 íbúðum.

Möguleikar á norðurenda reitsins haldast í hendur við færslu Miklubrautar í stokk. Að frumkvæði Reita var unnin forhönnun á stokknum sem kynnt var fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðinni í ársbyrjun 2019. Talið er að samfélagslegur ávinningur af verkefninu skapist m.a. með bættu umferðaröryggi og umhverfisgæðum, tíma- og eldsneytissparnaði og bættu aðgengi gangandi fyrir alla ferðamáta um gatnamótin sem nú eru hin umferðarmestu á höfuðborgarsvæðinu.

Gert er ráð fyrir að svæðið allt byggist upp á 10-15 árum frá því að hægt verður að hefjast handa.

Endurbygging Laugavegs 176 fyrir nýtt Hyatt Centric hótel hefst á árinu

Reitir stefna að því að halda fasteigninni í eignasafni félagsins til lengri tíma en selja rekstur hótelsins til traustra rekstraraðila. Nýja Hyatt hótelið verður hið fyrsta á Norðurlöndum en hótelin eru nú starfrækt í yfir 850 fasteignum í um 60 löndum.

Töluverð seinkun hefur orðið á þróun hótelsins enda var ákveðið að staldra við meðan heimsfaraldurinn stóð yfir. Á árinu 2022 var ákveðið að halda áfram vinnu við verkefnið og er gert ráð fyrir að byggingin verði tilbúin undir lok árs 2025.

Fjárfesting Reita í endurbyggingu fasteignarinnar, eins og fyrirhuguð hönnun hennar er nú, er áætluð rúmlega fimm milljarðar króna. Mun sá kostnaður að mestu falla til á árinu 2024 og 2025.

Hyatt Centric er keðja lífsstílshótela með skemmtilega stemningu. Húsið að Laugavegi 176 verður stækkað og endurnýjað til að hýsa hótelið.

Í desember 2019 var tilkynnt að alþjóðlega hótelkeðjan Hyatt Hotels Corporation og Reitir hefðu undirritað sérleyfissamning um rekstur Hyatt Centric hótels að Laugavegi 176. Fasteignin, sem um áratuga skeið hýsti starfsemi Ríkissjónvarpsins, verður endurbyggð og stækkuð þannig að hún rúmi 169 herbergi, fundarsali, veitingastað, heilsurækt og skemmtileg almenningsrými í anda Hyatt hótelkeðjunnar.

Aðrir byggingarréttir og þróunareignir

Aðrir byggingaréttir félagsins eru tengdir lykileignum í eignasafni félagsins á höfuðborgarsvæðinu, t.d. á Barónsstíg, Vogabyggð og á lóðinni að Höfðabakka 9. Þá hafa Reitir einnig kynnt þróunarhugmyndir á lóðum í eigu félagsins sem standa meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu.

 

Metróreitur

Við Suðurlandsbraut 56, á Metróreit í Skeifunni, er til skoðunar að byggja um 87 íbúðir í tveim­ur sam­tengd­um 5-7 hæða bygg­ing­um og 1.300 fermetra af versl­un­ar- og þjón­ustu­rými. Gert er ráð fyr­ir torg­rými, borg­arg­arði og tengingu við biðstöð borgarlínu. Tillögur hafa verið kynntar borgaryfirvöldum og eru þær í skoðun.

Esjureitur

Reitir keyptu Hallarmúla 2 í ársbyrjun 2021 ásamt tilheyrandi byggingarheimildum. Lóðin var áður hluti af Suðurlandsbraut 2 þar sem Hotel Hilton Reykjavik Nordica stendur. Á lóðunum tveimur eru áhugaverðir þróunarmöguleikar í skoðun en kynntar hafa verið hugmyndir að heildstæðu nýju skipulagi með áherslur á íbúðir.

Loftleiðareitur

Við Hotel Reykjavík Natura, eru uppi hugmyndir um uppbyggingu og styrkingu svæðisins. Reitir keyptu skrifstofubyggingu Icelandair í árslok 2020 í því augnamiði að skapa heildstæða framtíðarsýn fyrir svæðið og gera reitinn að virkari þátttakanda í Vatnsmýri framtíðarinnar. Gert er ráð fyrir fallegu torgi, matvöruverslun, líkamsrækt og kaffihúsi auk íbúða og/eða skrifstofuhúsnæðis.